Viðskipti innlent

Vaxtahækkunin í takt við spá greiningar Íslandsbanka

Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Íslandsbanka segir að ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans um að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur var í takti við þeirra spá. Aðrar opinberar spár gerðu ráð fyrir óbreyttum vöxtum.

„Peningastefnunefndin rökstyður ákvörðun sína á þann hátt sem við reiknuðum með þ.e. með því að verðbólguhorfur hafa versnað og að hætta er á að hærri verðbólguvæntingar festi verðbólguna í sessi," segir Ingólfur.

Verðbólgan er nú 5%, hefur aukist umtalsvert á þessu ári og er langt yfir verðbólgumarkmiði bankans. Verðbólgan stefnir hærra á næstu mánuðum og spáir bankinn því að hún verði 6,8% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs en hjaðni svo aftur á næsta ári og verði komin í verðbólgumarkmið bankans á þriðja ársfjórðungi árið 2013.

Peningastefnunefndin gefur til kynna í yfirlýsingu sinni sem birt var í morgun að frekari vaxtahækkana megi vænta á næstunni. Segja þeir að til þess að draga úr hættu á því að hærri verðbólguvæntingar og veikt gengi krónunnar festi of mikla verðbólgu í sessi og til að sporna gegn aukinni verðbólgu og hugsanlegum þrýstingi á gengi krónunnar kunni að vera þörf á því að hækka vexti frekar.

„Við reiknum með því að bankinn muni hækka vexti sína um 0,5 prósentur til viðbótar fyrir lok árs," segir Ingólfur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×