Viðskipti innlent

Telur Seðlabanka Íslands hafa skortselt Pandóru

Viðskiptavefsíðan Finanswatch gerir að því skóna að það hafi verið Seðlabanki Íslands sem tók stærstu skortstöðurnar í skartgripaframleiðendanum Pandóru á hlutabréfamarkaðinum í Kaupmannahöfn. Þetta hafi bankinn gert til að verja þá fjármuni sem Seðlabankinn á að fá fyrir FIH bankann en söluverðið var að hluta til bundið við gengi Pandóru.

Á vefsíðunni segir að Finanswatch hafi spurst fyrir um málið hjá Seðlabanka Íslands en þar á bæ hafi menn alfarið neitað að hafna eða staðfesta skortsöluna.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum urðu hlutir í Pandóru fyrir gríðarlegri skortsölu og var talið að þar væru vogunarsjóðir að verki. Hagnaðurinn af skortsölunni nam mörgum milljörðum danskra kr. eða tugum milljarða kr.

Finanswatch segir að í fyrstu hafi Seðlabankinn tjáð þeim að svar við fyrirspurninni væri á leiðinni. Síðan hafi bankinn dregið í land. Haft er eftir Stefáni Jóhanni Stefánssyni ritstjóra Seðlabankans að bankinn vilji ekki svara fyrirspurninni.

Skortsala er það þegar fjárfestir fær lánuð hlutabréf til ákveðins tíma en selur þau strax. Þegar lánstímanum lýkur skilar hann bréfunum. Hafi gengi þeirra lækkað græðir fjárfestirinn. Hafi þau hækkað í verði tapar hann. Lánveitandinn fær hinsvegar yfirleitt fasta ákveðna þóknun fyrir viðvikið.


Tengdar fréttir

Vogunarsjóðir stórgræddu á að skortselja Pandóru

Í ljós er komið að vogunarsjóðir stórgræddu á því að skortselja hluti í skartgripaframleiðandanum Pandóru í Danmörku. Sem kunnugt er af fréttum ríkir fullkomin óvissa um hverjar heimtur Seðlabankans verða af sölu FIH bankans eftir að hlutir í Pandóru hröpuðu um 65% á einum degi í síðustu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×