Viðskipti innlent

Skúli Mogensen og frú eiga tæpa 8 milljarða í hreinni eign

Skúli Mogensen, kenndur við Oz og stærsti eigandi MP banka, og kona hans Margrét Ásgeirsdóttir eiga samanlagt tæplega 8 milljarða kr. í hreinni eign.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir að þau hjónin greiddu saman hæstu auðlegðarskattana af þeim einstaklingum sem blaðið kannaði. Miðað við skattgreiðslur nemur hrein eign þeirra samanlagt um 7,8 milljörðum króna.

Skúli leiddi hóp fjárfesta sem eignaðist MP banka fyrr á árinu en hann er eigandi Títans fjárfestingafélags sem á meðal annars Thor Data Center. Hann greiddi þriðju hæstu gjöldin meðal einstaklinga á skattaárinu samkvæmt lista yfir 50 hæstu gjaldendur.

Auðlegðarskattur var fyrst innheimtur í fyrra og var þá lagður 1,25% eignaskattur á hreinar eignir einstaklings umfram 90 milljónir króna eða á hreinar eignir fólks í sambúð umfram 120 milljónir króna. Skattmörk voru lægri í ár, 75 milljónir kr. hjá einstaklingum og 100 milljónir kr. hjá fólki í sambúð.

Skattprósentan breyttist einnig frá fyrra ári og hækkaði um 0,25%. Viðbótarskatturinn, sem samtals innheimti um 1,8 milljarða í ríkiskassann, er síðan tilkomin vegna hlutabréfaeigna framteljenda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×