Viðskipti innlent

Landbúnaðarháskólinn keyrði fram úr fjárlögum

Stofnanir tengdar landbúnaði keyrðu sumar rækilega fram úr fjárheimildum. Landbúnaðarháskólinn keyrði meira en helming fram úr fjárlögum.
Stofnanir tengdar landbúnaði keyrðu sumar rækilega fram úr fjárheimildum. Landbúnaðarháskólinn keyrði meira en helming fram úr fjárlögum.
Landbúnaðarháskóli Íslands keyrði meira en helming fram úr fjárlögum. Þrátt fyrir að flestar ríkisstofnanir hafi haldið sig innan fjárlaga kostuðu margar þeirra ríkið mun meira en lagt var upp með á síðasta ári.

Það er gömul saga og ný að á hverju ári kosta margar ríkisstofnanir meira í rekstri en lagt var upp með í fjárheimildum ársins. Í inngangi að ríkisreikningi ársins 2010 hampar fjármálaráðherra því reyndar að þær hafi verið færri á síðasta ári en áður var. Engu að síður eru nokkrir svartir sauðir í ríkisreikningnum.

Stofnanir tengdar landbúnaði keyrðu til dæmis sumar rækilega fram úr fjárheimildum. Landbúnaðarháskólanum voru skammtaðar 372 milljónir króna í fjárheimildum, en hann kostaði hið opinbera 610 milljónir, og keyrði þar með um 65 prósentum fram úr fjárheimildum. Búnaðarsjóður fór þriðjungi fram úr fjárheimildum og Fóðursjóður tíund.

Samkvæmt ríkisreikningi kostaði Landspítalinn svo tæpum þremur milljörðum meira í rekstri en fjárheimildir gerðu ráð fyrir.

Sinfóníuhljómsveit Íslands kostaði 740 milljónir, en átti að fá 637 milljónir úr ríkissjóði; hljómsveitin fór 16 prósentum fram úr fjárlögum.

Þjóðgarðar reyndust einnig dýrari en fjárlög gerðu ráð fyrir; bæði Vatnajökulsþjóðgarður og þjóðgarðurinn á Þingvöllum kostuðu þriðjungi meira en þeim var skammtað.

Þá gátu ýmsar menntastofnanir ekki haldið sig innan fjárlaga, en Árnastofnun, Ajölbrautaskóli Vesturlands og Fjölbrautaskóli Snæfellinga fóru öll meira en tíund fram úr fjárlögum.

Lögreglu- og sýslumannsembætti stóðu öll nokkurnvegin á pari við áætlun, ef frá er talinn lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Hann eyddi um 150 milljónum meira en hann mátti og fór þannig fimmtungi fram úr áætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×