Handbolti

Tomas Svensson til Rhein-Neckar Löwen

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Thomas Svensson með liðsfélaga sínum Staffan Olsson á góðri stundu
Thomas Svensson með liðsfélaga sínum Staffan Olsson á góðri stundu Mynd/Getty Images
Sænski markvörðurinn Tomas Svensson hefur gengið frá samningi við þýska handknattleiksliðið Rhein-Neckar Löwen. Svensson er ráðinn sem markmannsþjálfari en mun leysa Goran Stojanovic af fyrri hluta næsta tímabils.

Svensson sem er 43 ára kemur til Löwen frá spænska liðinu Valladolid. Hlutverk hans er fyrst og fremst hugsað sem markmannsþjálfari en þó þarf Löwen á kröftum hans á vellinum að halda hluta næsta tímabils.

Leikmannasamningur Svensson nær út næsta tímabil en hann hefur skrifað undir tveggja ára samning sem markvarðarþjálfari.

Markvörður Löwen, Svartfellingurinn Goran Stojanovic, verður frá fyrri hluta tímabilsins en markvörðurinn gekkst nýverið undir uppskurð.

Svensson var hluti af gullaldarliði Svía og varð á sínum tíma tvisvar heimsmeistari, þrisvar Evrópumeistari auk þriggja silfurverðlauna á ólympíuleikum. Þá vann Svensson til fjölda verðlauna sem atvinnumaður á Spáni og í Þýskalandi.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, þjálfar Rhein-Neckar Löwen og Róbert Gunnarsson leikur með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×