Handbolti

Rhein-Neckar Löwen steinlá fyrir Gummersbach

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson í leik með Löwen.
Ólafur Stefánsson í leik með Löwen. Nordic Photos / Bongarts
Rhein-Neckar Löwen tapaði heldur óvænt fyrir Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 36-28. Liðið á því tæpast lengur möguleika á öðru sæti deildarinnar.

Kiel, Füchse Berlin og Löwen voru öll jöfn að stigum í 2.-4. sæti deildarinnar fyrir umferðina en hin liðin tvö unnu bæði sína leiki um helgina. Tvær umferðir eru nú eftir af tímabilinu.

Gummersbach komst snemma yfir í leiknum en staðan í hálfleik var 18-14, heimamönnum í vil. Sigur þeirra var svo aldrei í hættu í síðari hálfleik.

Ólafur Stefánsson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen í leiknum en þeir Róbert Gunnarsson og Guðjón Valur Sigurðsson komust ekki á blað að þessu sinni. Guðmundur Guðmundsson er þjálfari liðsins.

Efstu fjögur liðin í deildinni komast í Meistaradeildina og er Löwen þó öruggt með fjórða sætið.

Þá vann Lemgo sigur á Grosswallstadt í kvöld, 33-27. Sverre Jakobsson lék í vörn Grosswallstadt og skoraði ekki í leiknum. Grosswallstadt er í tíunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×