Fastir pennar

Frankenstína

Pawel Bartoszek skrifar
Að mati kærunefndar jafnréttismála braut Jóhanna Sigurðardóttir jafnréttislög. Þótt sjálfsagt er að rifja upp gömul ummæli hennar við sambærilegum uppákomum og velta málinu upp frá pólitískum flötum, þá á það einnig sér aðrar, praktískari, hliðar. Ef einni helstu stuðningskonu núgildandi jafnréttislaga virðist illfært að framfylgja þeim, hve raunhæft er þá að leggja þær skyldur sem í lögunum felast á öll fyrirtæki landsins? Það hafa ekki endilega allir sömu burði til að standa að ítarlegu fjölþrepa-ráðningarferli. Og jafnvel slíkt virðist ekki duga.

Það er auðvitað varhugavert að setjast í dómarasæti í umræddur máli en sé úrskurður kærunefndar lesinn er ekki hægt annað en að fá það á tilfinninguna en að sú sem kærði hafi sitthvað til síns máls. Sé til dæmis litið til menntunar, starfsreynslu og tungumálakunnáttu verður vart annað séð en að mat ráðuneytisins, eða ráðgjafa þess, á hæfni konunnar, sé í töluverðu ósamræmi við þau skriflegu gögn sem lágu fyrir. Skýringar ráðuneytisins byggðu á tilvísun í huglægt mat ráðgjafans og þær skýringar virkuðu veikar.

Bara til að það sé ljóst þá ber ráðherra áfram ábyrgð þótt hann biðji um ráð. Auðvitað væri þægilegt að hann gæti vísað faglegri ábyrgð á ráðgjafann sem vísaði hinni formlegu ábyrgð á ráðherrann og lokaði þannig hringnum. En þannig virkar þetta ekki alveg.

Jafnréttisþrjótar?En þá kemur auðvitað að þeirri spurningu hvort það sé líklegt að þær konur sem sáu um ráðninguna hafi ekki viljað ráða konu heldur einhvern gaur. Sjálfum detta mér nokkrir tugir annarra líklegri ástæðna í hug: að menn höfðu verið búnir að ákveða sig fyrirfram, að menn vildu ráða einhvern sem þeir þekktu, að menn vildu ekki ráða einhvern út af ástæðum sem þeir vildu ekki hafa skriflegar, eða að menn að hafi einfaldlega leyft utanaðkomandi ráðgjöf ráða för í góðri trú. Margt má sjá í þessu máli og sumt gruggugt, en að kynferði hafi ráði ákvarðanatöku er langsótt.

Það er auðvitað dálítið undarlegt að sú aðferð að kæra mál á grundvelli jafnréttislaga virðist vera besta leiðin til að bjóða ráðherra byrginn vegna ómálefnalegrar ráðningar. Réttarstaða karls er meiri ef kona er ráðin og öfugt. Ef litið er framhjá menntun konu og reynslu þá verður hún helst að vona að karl verði ráðinn. Þannig er nú jafnréttið.



Atvinnu(kyn)líf En eitt er síðan að ákveða hvernig hið opinbera hagar málum á sínum heimavelli, annað er kannski þegar sömu stefnumarkandi skyldur eru lagðar á atvinnulífið. Dekkjaverkstæði sem ekki semja jafnréttisáætlun geta verið beitt dagssektum. Talsmaður fyrirtækisins Össur vísaði til laga um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem einni af ástæðum fyrir afskráningu fyrirtækisins úr kauphölllinni. Án þess að menn þurfi að láta allt eftir atvinnulífinu þá er spurning hvort þetta sé góð þróun.

Eins og það er ástæða til að hafa fullan skilning á markmiðum jafnréttislaga þá liggur það fyrir að sá ójöfnuður sem enn þrífst á sér að mestu samfélagslegar og menningarlegar rætur en ekki lagalegar.

Það mætti því tækla hann með samfélagslegum úrræðum en ekki endilega lagalegum. Jákvæðar aðgerðir geta skilað meiru en neikvæð lagasetning.



Ráðningarstofa ríkisins En hverjar verða afleiðingar af þessu máli? Ætli ein líkleg, og vond, niðurstaða verði ekki sú að flestar opinberar ráðningar verði framvegis fyrirfram stimplaðar af jafnréttisyfirvöldum.

Jafnréttisstofnanir gætu þá talið kynin í flestum starfsstéttum og dregið af því ályktanir. Í úrskurði kærunefndarinnar kom þannig fram að "af 54 skrifstofustjórum Stjórnarráðsins, að utanríkisráðuneytinu undanskildu, voru á þeim tíma sem hér um ræðir og eftir því sem næst verður komist, 38 karlar og 16 konur." Það að sleppa utanríkisráðuneytinu án skýringa slær mann sem dæmigerð sköpunartölfræði. Kynjatalningar sem þessar eru jafneinfaldar og þær eru grunnar. Þær miða þær að því að skoða málin frekar út frá jafnrétti kynjanna, sem hópa, frekar en jafnrétti einstaklinga, óháð kyni.

Sá úrskurður sem kærunefndin felldi var að mörgu leyti góður. Það er hins vegar full ástæða til að hugleiða hvort sú leið lagasetningar sem mörkuð hefur verið í jafnréttismálum sé endilega farsælust. Alla vega hvað atvinnulífið snertir.






×