Viðskipti innlent

Frumvarp um framlengingu gjaldeyrishafta lagt fram í lok mars

Árni Páli Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, mun leggja fram tillögu á Alþingi þar sem sóst verður eftir heimild til þess að framlengja höftin til þessa árs. Þetta kom meðal annars fram á fundi Árna Páls og Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu.

Þar var farið fyrir niðurstöðu sérstaks stýrihóps, sem í eiga sæti efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Hópurinn hefur haft forystu um mótun áætlunar um afnám gjaldeyrishafta. Stýrihópurinn hefur unnið náið með sérfræðingum ráðuneyta og stofnana.

Afraksturinn er skýrsla Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Árni Páll segir frumvarpið verði lagt fram strax í lok mars.

Lengri tíma hefur tekið að afnema höftin en upphaflega stóð til. Orðrétt segir í skýrslunni:

„Ljóst er að það hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir að skapa þau skilyrði sem eru forsenda þess að hægt sé að afnema höftin án þess að það valdi verulegum óstöðugleika. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Verulegar tafir urðu á framkvæmd efnahagsáætlunarinnar, m.a. vegna þess að Icesave‐deilan tafði afgreiðslu Norðurlandalána.

Einnig tók mun lengri tíma að koma efnahagsreikningum hinna nýju banka saman en upphaflega var áætlað, aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja tóku langan tíma og mikil óvissa skapaðist um efnahag bankanna í kjölfar þess að Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu lána ólögmæta og óskuldbindandi. Þá hafa aðstæður á erlendum lánsfjármörkuðum lengst af verið afar óhagstæðar.

Þær aðstæður og lægra lánshæfismat hafa orðið til þess að tefja aðgengi ríkissjóðs að erlendum lánsfjármörkuðum.

Aflandskrónuvandinn hefur af ýmsum ástæðum ekki verið leystur með aðkomu nýrra langtímafjárfesta að því marki sem vonast var til."

Skýrsluna má svo lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×