Handbolti

Óskar: Skandall að nýta ekki markvörsluna

Hjalti Þór Hreinsson í Höllinni á Akureyri skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson.
Óskar Bjarni Óskarsson. Fréttablaðið/Daníel
Óskar Bjarni Óskarsson segir að markvarsla Hlyns Morthens hafi átt að koma liðinu í góða stöðu. Sókn liðsins hafi bara verið svo léleg að það gekk ekki eftir.

Þetta er kórrétt hjá Óskari. Hlynur varði frábærlega í fyrri hálfleik í 23-20 tapinu gegn Akureyri í kvöld en samt var staðan 9-9 í hálfleik.

“Það er skandall að það hafi verið jafnt í hálfleik. Við áttum að vera þremur eða fjórum mörkum yfir. Hann datt aðeins niður í seinni hálfleiknum, eðlilega, en sóknin var bara léleg.”

“Akureyringar risu upp í lokin. Lykilmenn beggja liða voru þreyttir. Við misstum þetta frá okkur í yfirtölunni í seinni hálfleik. Bæði lið spiluðu lélega sókn en góðar varnir,” sagði Óskar sem var ekki ánægður með dómgæsluna.

“Mér fannst dómgæslan léleg, hendin kom snemma upp á okkur og þeir fengu ódýr aukaköst. Þegar þeir ráku útaf, sem þeir áttu að gera mun oftar hjá þeim, hentu þeir okkur líka útaf í næstu sókn fyrir einhver smáræði. Ég á þó eftir að skoða þetta betur. Dómgæslan lagaðist í seinni hálfleik en það er varla hægt að kvarta þegar sóknin var svona léleg,” sagði Óskar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×