Handbolti

Guðjón Valur íhugar framtíð sína hjá Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðssno í leik með Löwen.
Guðjón Valur Sigurðssno í leik með Löwen. Nordic Photos / Bongarts
Guðjón Valur Sigurðsson var allt annað en sáttur við sjálfan sig eftir að lið hans, Rhein-Neckar Löwen, tapaði óvænt fyrir franska liðinu Chambery í Meistaradeild Evrópu í gær. Hann íhugar nú stöðu sína hjá liðinu.

Leikurinn fór fram í Frakklandi en heimamenn fóru með fimm marka sigur af hólmi, 32-27. Sigurinn var nauðsynlegur fyrir Chambery en liðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar með honum. Löwen var löngu búið að því fyrir leikinn í gær.

Uwe Gensheimer gat ekki spilað með Löwen í gær og því reyndi meira á Guðjón Val en í undanförnum leikjum. Guðjón Valur var lengi frá vegna meiðsla á síðasta ári en byrjaði aftur að spila skömmu áður en HM í Svíþjóð hófst en þar hafði hann stóru hlutverki að gegna með íslenska landsliðinu.

„Ég spilaði illa. Það þarf ekkert að ræða það frekar,“ sagði Guðjón Valur við þýska fjölmiðla eftir leikinn í gær. „Mér líður vel og er í ágætu formi en skortir leikreynslu. Tímasetningin hjá mér er röng og mig skortir tilfinninguna fyrir varnarleiknum og öryggi í hraðaupphlaupum.“

Guðjón Valur skoraði eitt mark í leiknum og segist skilja vel ef hann þarf að víkja fyrir Gensheimer í næsta leik.

„Það er skylda þjálfarans að ná árangri. Gensheimer hefur spilað vel og það er engin ástæða til að breyta einhverju. Þjálfarinn stillir upp sínu sterkasta liði hverju sinni,“ sagði Guðjón Valur en þjálfari Löwen er landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson.

„Ég verð að taka stöðunni eins og hún er. Það er erfitt að sýna hvað maður getur þegar maður fær fá tækifæri til þess. Þá ætlar maður sér of mikið. En þrátt fyrir það varð ég fyrir miklum vonbrigðum með frammistöðu mína í Chambery.“

Hann útilokar greinilega ekki að hann fari frá félaginu í sumar. „Maður þarf að geta talað um allt. Ég kom hingað árið 2008 undir öðrum formerkjum og hef spilað undir nokkrum þjálfurum. Ég get ekki sagt hvort ég verði áfram hér eða fari annað. Ef að félagið vill halda mér getur vel verið að svo fari. En ég á erfitt með að ímynda mér það nú.“

Í viðtalinu fullyrðir þýski blaðamaðurinn að það hafi alltaf verið draumur Guðjóns Vals að spila á Spáni.

„En börnin mín ganga í skóla í Þýskalandi. Það er ekki alltaf einfalt að skipta um félag. Ég vil auðvitað spila með góðu félagi og þá koma ekki mörg til greina. En ég er ekki að hugsa um þetta í augnablikinu. Ég vil finna aftur mitt gamla form. Eins og er myndi ég aðeins reynast neðrideildarliði einhver styrkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×