Viðskipti innlent

Úlfar og Kristján vildu halda kaupverðinu á Toyota leyndu

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi.
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi.
Landsbankinn vill enn ekki gefa upp kaupverð á Toyota á Íslandi en í lok júní gengu Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota og Kristján Þorbergsson, fjármálastjóri frá kaupum á 60 prósenta hlut á Toyota á Íslandi af bankanum. Kaupverðið hefur ekki fengist upp gefið ólíkt því sem gildir um Domino's en í tilkynningu sem bankinn sendi út í gær var kaupverð á Pizza Pizza ehf., móðurfélagi Domino's gefið upp. Hefur þetta vakið upp spurningar um ólík vinnubrögð Landsbankans þegar kemur að upplýsingagjöf vegna sölu á eignum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er það hvort kaupverð á eignum bankans fæst upp gefið hluti af samkomulagi milli bankans og kaupenda. Af þessu má draga þá ályktun að ekki hafi náðst samkomulag við þá Úlfar og Kristján um að gefa kaupverðið upp og þess vegna hafi það ekki verið gert.

Fréttastofa spurði sérstaklega um það hvort ástæðan væri sú að þeir Kristján og Úlfar hafi ekki viljað gefa kaupverðið upp. „Það er stefna bankans að hafa þetta eins gagnsætt og mögulegt er og veita sem mestar upplýsingar en í þessu tilviki náðist ekki samkomulag um að birta kaupverð," segir Soffía Sigurgeirsdóttir, á samskiptasviði Landsbankans. Ekki náðist í Úlfar Steindórsson í morgun þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×