Viðskipti innlent

Saksóknari hættir rannsókn á EFÍA - flugmenn íhuga að stefna ríkinu

Höfuðstöðvar Sérstaks saksóknara.
Höfuðstöðvar Sérstaks saksóknara.
Sérstakur saksóknari hefur til­kynnt að hann hafi hætt rannsókn á meintum brotum á fjárfestingar­heimildum Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og fjögurra annarra lífeyrissjóða sem voru í umsjá gamla Landsbankans fyrir hrun. Staðfesting þess efnis barst sjóðnum 2. október síðastliðinn samkvæmt fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA).

Þar segir ennfremur að Stjórn EFÍA fagni þessari niður­stöðu en harmar jafnframt að það hafi tekið sérstakan saksóknara tvö og hálft ára að rannsaka málið með tilheyrandi álitshnekki fyrir sjóðinn og þá sem störfuðu við rekstur hans.

Í árslok 2008 kom fram við at­hugun Fjármálaeftirlitsins (FME) að EFÍA og aðrir líf­eyrissjóðir, sem höfðu verið í rekstri hjá gamla Landsbankanum, höfðu farið út fyrir fjár­festingarheimildir á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2008, og gefið FME rangar upplýsingar um fjárfestingar sínar.

Stjórn EFÍA var sett af árið 2009 en fjármálaráðuneytið skilaði svo sjóðnum aftur til stjórnarinnar nokkrum mánuðum síðar.

Í fréttabréfi FÍA segir að athugun starfsmanna Lands­bankans hf. (sem hafði á þessum tíma tekið yfir rekstur sjóðsins) leiddi í ljós að auðskýranleg mistök höfðu átt sér stað við úrvinnslu gagna sem leiddu til rangrar skýrslugjafar og þess að vikið var frá fjárfestingarstefnu.

Stjórn sjóðsins mun í kjölfar ákvörðunar sérstaks saksóknara, um að hætta rannsókn málsins, skoða rétt sinn vegna þess kostnaðar sem sjóðurinn hefur þurft að bera m.a. vegna skipunar umsjónaraðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×