Viðskipti innlent

Enn bið eftir að ljúka endurskipulagningu á fjármálum Icelandair

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það mun dragast eitthvað að ljúka við fjárhagslega skipulagningu Icelandair. Mynd/ Pjetur.
Það mun dragast eitthvað að ljúka við fjárhagslega skipulagningu Icelandair. Mynd/ Pjetur.
Það mun frestast um sinn að ljúka við fjárhaglega endurskipulagninu Icelandair Group. Ástæðan er sú að enn er beðið eftir samþykki Samkeppniseftirltisins sem er nauðsynlegt til að klára sölu á eignum til félags í eigu lánveitenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group til Kauphallar Íslands.

Icelandair Group hf. tilkynnti þann 15. desember síðastliðinn að frágangi formsatriða vegna loka fjárhagslegrar endurskipulagningar yrði lokið fyrir lok janúar. Öll skjöl eru nú til staðar í samþykktu formi milli samstæðunnar og lánveitenda hennar. Aðeins er beðið eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallarinnar kemur fram að gert sé ráð fyrir að samþykkið liggi fyrir á næstu dögum og muni það marka lok þeirrar fjárhagslegu endurskipulagningar samstæðunnar sem staðið hefur yfir frá árslokum 2008.

Samið hefur verið um það við bankana að Icelandair muni áfram eiga SmartLynx og hlut sinn í Travel Service þar sem ekki fengust samþykki frá viðeigandi lánveitendum og hluthöfum þeirra félaga. Í upphaflegum kaupsamningi var gert ráð fyrir að heildarsöluverð þeirra eigna sem til stóð að selja næmi 7,6 milljörðum og mun það haldast óbreytt. Engin breyting hefur orðið á stefnu samstæðunnar varðandi sölu þessara eigna og heldur söluferli því áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×