Handbolti

Umfjöllun: Danir með fjögur stig í milliriðilinn

Smári Jökull Jónsson í Malmö skrifar
Danir fagna marki frá Kasper Söndergaard fyrr í mótinu
Danir fagna marki frá Kasper Söndergaard fyrr í mótinu Mynd/AFP

Króatar og Danir mættust í gríðarlega mikilvægum leik í síðustu umferð riðlakeppni Heimsmeistaramótsins í handknattleik í kvöld. Bæði lið voru komin áfram í milliriðlana fyrir leikinn og snerist málið því um hversu mörg stig þau tækju með sér þangað.

Svo fór að Danir unnu þægilegan sigur, 34-29, og fara með fjögur stig áfram í milliriðlinum á meðan Króatar taka einungis eitt stig með sér líkt og Serbar.

Fyrri hálfleikur var gríðarlega jafn. Munurinn varð aldrei meiri en eitt mark og liðin áttu frekar auðvelt með að skora. Hinn sterki markvörður Króata, Mirko Alilovic, náði sér engan veginn á strik og var tekin af velli eftir um 10 mínútur en þá hafði hann ekki varið eitt skot.

Stórskyttan Mikkel Hansen hélt áfram góðum leik frá því gegn Serbíu og Kasper Söndergaard skoraði mikilvæg mörk með með því að brjótast í gegnum framliggjandi vörn Króata. Ivano Balic var óvenju slakur í liði Króata en línumaðurinn Igor Vori og örvhenta skyttan Denis Buntic lögðu sitt af mörkum í sókninni.

Sóknarleikur Króata var lengst af ágætur í fyrri hálfleik og fór svo að þeir höfðu eins marks forystu í hálfleik, 16-15.

Danir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Vörn þeirra spilaði betur en í þeim fyrri og áttu Króatar í töluverðum vandræðum í sínum sóknarleik á meðan Danir gátu nærri því skorað að vild. Hægir Króatar réðu ekkert við hraðan leik Dana og Ivano Balic var ekki svipur hjá sjón.

Danir juku hraðann jafnt og þétt og um leið forskot sitt og virtist Króötum vera nákvæmlega sama þó draumar þeirra um að spila um verðlaun væru að fjarlægjast all verulega. Ekki var að sjá að þar færi lið sem af mörgum var spáð sæti í úrslitaleik keppninnar og þó svo að Danir hafi spilað seinni hálfleikinn feykivel hlýtur að vera langt síðan Króatar spiluðu jafn illa.

Kasper Söndergaard átti magnaðan leik í liði Dana og skoraði hvorki fleiri né færri en 10 mörk. Mikkel Hansen fylgdi á eftir með 9 og þá lék Niklas Landin vel í markinu í seinni hálfleik fyrir aftan sterka vörn.

Hjá Króötum átti áðurnefndur Denis Butnic ágæta spretti en mestu munaði þó um að markverðir liðsins náður sér engan veginn á strik í leiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×