Viðskipti innlent

Lánasjóður hagnast um hálfan milljarð

Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga á fyrri helmingi ársins nam 519 milljónum króna miðað við 941 milljónir króna á sama tíma árið 2010 og var í samræmi við væntingar sjóðsins. Lækkun hagnaðar milli ára skýrist aðallega af gengisþróun evrunnar sem var sérstaklega hagstæð sjóðnum á árinu 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þar segir að meginhlutverk sjóðsins er að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum. Útborguð langtímalán á tímabilinu námu tæpum 3,5 milljörðum kr. samanborið við rúm 2 milljarða kr. á sama tímabili í fyrra.

Vegið eiginfjárhlutfall samkvæmt Basel II um eigið fé fjármálafyrirtækja er 51% og lækkar úr 78% frá áramótum. Skýring lækkunarinnar felst í nýsettum reglum Fjármálaeftirlitsins um breytingu á reglum um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, sem tóku gildi 13. apríl 2011.   Ef að núverandi aðferð hefði verið beitt um áramót hefði reiknað eiginfjárhlutfall  sjóðsins verið 48% í árslok 2010.

Aðstæður á lánsfjármörkuðum munu hafa úrslitaáhrif á möguleika sjóðsins til að koma til móts við lánsfjárþörf sveitarfélaganna á árinu. Allt kapp verður lagt á að tryggja lánshæfi sjóðsins og viðhalda því trausti sem fjárfestar hafa á skuldbindingum hans.

Lánasjóðurinn mun að öðru leyti starfa í meginatriðum líkt og undanfarin ár þar sem stefnt hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×