Viðskipti innlent

Landsbankinn stefnir Stím-feðgum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Fyrirtaka fór fram í morgun í skuldamáli sem Landsbankinn hefur höfðað gegn útgerðamanninum Flosa Valgeiri Jakobssyni og félags í eigu sonar hans, Jakobs Valgeirs Flosasonar.

Um er að ræða einkamál sem bankinn hefur höfðað gegn félagi sem heitir JV ehf en hét áður Jakob Valgeir ehf. og er í Bolungarvík. Þá er Ofjarli ehf., sem er í eigu Flosa, og eignarhaldsfélaginu Gafli stefnt.

Um er að ræða skuldamál vegna lána sem útgerðin tók í erlendri mynt, það er að segja í svissneskum frönkum. Lánið hefur tvöfaldast eftir að krónan féll og hleypur á hundruðum milljóna króna.

Ekki fékkst uppgefið hversu hárrar upphæðar skilanefnd Landsbankans krefst af útgerðinni sem mun vera mjög skuldsett eftir hrun. Félögin tvö, Ofjarl og Gafl, gengust í ábyrgð fyrir lánið.

Stímfeðgarnir Jakob Valgeir og Flosi eiga í miklum rekstrarerfiðleikum með útgerðarfélag sitt Jakob Valgeir ehf., þrátt fyrir að hafa flutt línuskipið Þorlák og 40 prósent af kvóta skipsins af gömlu kennitölunni yfir á aðra kennitölu í upphafi síðasta árs.

Lögmaður feðganna vill meina að tenging erlendra lána við krónuna sé ekki eðlileg og á því er vörn feðganna byggð. Um var að ræða rekstralán sem rauk upp við fall krónunnar.

Þess má geta að sjávarútvegur á Íslandi er verulega skuldsettur eftir hrun bankanna.

Jakob Valgeir komst í fréttirnar stuttu eftir hrun 2008 vegna dularfulls eignarhaldsfélags sem heitir Stím ehf.

Það félag reyndist vera í meirihluta eigu Glitnis og sæta aðilar tengdu félaginu rannsókn vegna gruns um markaðsmisnotkun.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×