Skoðun

Þjófur -s, -ar KK

Rúnar Helgi Vignisson skrifar
Í mínum huga hefur orðið þjófur verið endurskilgreint. Nú einskorða ég skilgreininguna ekki lengur við hegningarlögin sem okkar mistæka Alþingi hefur samþykkt heldur set orðið í víðara samhengi. Jón Hreggviðsson var ekki eiginlegur þjófur í mínum huga þótt hann nældi sér í snæri og margir þeirra sem breska heimsveldið lét flytja til Ástralíu á sínum tíma voru það ekki heldur. Jón og áströlsku sakamennirnir voru miklu frekar fórnarlömb þjófa, rétt eins og alþýða þessa lands er nú.

Það felur nefnilega í sér þjófnað að búa til samfélag sem hlunnfer suma þegna sína. Samfélag sem misskiptir auði sínum svo gróflega að sumir neyðast til að stela sér til lífsviðurværis er samfélag ranglætis sem ekki verður réttlætt og gerir alla að þjófum áður en yfir lýkur. Ekkert réttlætir að fáir sölsi undir sig svo mikinn auð að þúsundir ef ekki milljónir annarra lepji dauðann úr skel. Þeir sem það gera eru þjófar enda kemur alltaf í ljós að auðurinn var illa fenginn, að hann var í rauninni ólíðandi upptaka á eigum og lífsorku annarra. Sagan sýnir okkur að slík þróun endar á einn veg því allir telja sig innst inni eiga rétt á mannsæmandi lífi.

Vissulega á snjallt fólk sem skapar öðrum lífsviðurværi að njóta þess, en ef því hefur líka verið gefin viska veit það að umbunin felst ekki bara í veraldlegum auði. Mannkyninu óx ekki fiskur um hrygg af því fáir kúguðu auðinn út úr þegnunum. Umbunin felst í samfélagi þar sem allir njóta sín og síns auðs á sanngjörnum forsendum.

En vei hinni föllnu borg; nú horfir maður á eigur nágrannans og hugsar sitt.



Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×