Viðskipti innlent

Evran ekki verið ódýrari hérlendis í heilt ár

Þegar markaðir lokuðu í gær kostaði evran 169,99 kr. og hefur evran ekki kostað jafn fáar krónur í heilt ár. Þannig hefur evran kostað yfir 170 kr. á innlendum gjaldeyrismarkaði allt frá maíbyrjun í fyrra. Krónan hefur svo haldið áfram að styrkjast nú í morgun og kostar þegar þetta er ritað (11:45) 169 kr. á millibankamarkaði með gjaldeyri.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ekki sé ólíklegt að hér sé um að ræða aukið gjaldeyrisinnflæði vegna afgangs af vöru og þjónustuviðskipum. Evran kostar nú tíu krónum minna en hún gerði í upphafi árs en allt frá áramótum talið hefur hún verið að styrkjast hægt og sígandi gagnvart evrunni.

„Eins og kunnugt er fylgist peningastefnunefnd Seðlabankans náið með gengi krónunnar enda er gengisstöðuleiki eða styrking ein af forsendum þess að hægt sé að halda áfram að lækka vexti. Frá síðustu vaxtaákvörðun sem var þann 17. mars síðastliðinn hefur krónan styrkst um 1,5% gangvart evrunni en á heildina litið er gengi krónu gagnvart öðrum gjaldmiðlum á svipuðum slóðum og um miðjan mars. Verðbólga hefur einnig hjaðnað á tímabilinu og teljum við að búast megi við að peningastefnunefnd lækki vexti bankans um 0,75 prósentur á morgun," segir í Morgunkorninu.

„Evran hefur einnig haldið áfram að veikjast gagnvart Bandaríkjadal í morgun og kostar þegar þetta er ritað 1.3095 dali. Eftir sem áður eru það áhyggjur af Grikklandi og vonbrigði með aðgerðapakka AGS og ESB sem veikja evruna nú. Þrátt fyrir að markaðsaðilar séu almennt sammála um það að staða Grikklands er nú mun betri en áður ríkir almenn vantrú á að grísk stjórnvöld hafi agann til að herða sultarólina til jafns við það sem AGS og ESB vilja og gera að skilyrði fyrir aðstoð."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×