Handbolti

Rhein-Neckar Löwen tapaði fyrir Magdeburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jure Natek, leikmaður Magdeburg, sækir að marki Rhein-Neckar Löwen í kvöld.
Jure Natek, leikmaður Magdeburg, sækir að marki Rhein-Neckar Löwen í kvöld. Nordic Photos / Bongarts

Fjórir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og tapaði Rhein-Neckar Löwen nokkuð óvænt sínum fyrsta leik á tímabilinu.

Löwen tapaði fyrir Magdeburg á útivelli, 33-29, eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 17-16. Ólafur Stefánsson skoraði tvö mörk fyrir Löwen og Róbert Gunnarsson eitt.

Austurríkismaðurinn Robert Weber fór á kostum í leiknum og skoraði ellefu mörk fyrir Magdeburg.

Füchse Berlin og Kiel eru enn bæði taplaus á toppi deildarinnar eftir fjórar umferðir en bæði lið eru þjálfuð af íslenskum þjálfurum.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin unnu Melsungen á heimavelli í kvöld, 29-23, en Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir fyrrnefnda liðið í leiknum.

Þá skoraði Aron Pálmarsson þrjú mörk fyrir Kiel, sem er undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, í stórsigri á Balingen, 40-18.

Að síðustu tapaði Rheinland fyrir Flensburg á heimavelli, 30-19. Sigurbergur Sveinsson skoraði eitt mark fyrir Rheinland en Árni Þór Sigtryggsson ekkert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×