Viðskipti innlent

Rannsókn sérstaks á sömu slóðum og New York málið

Víðtækar aðgerðir og rannsókn sérstaks saksóknara í dag benda til þess að hann sé að róa á sömu mið og slitastjórn Glitnis í málaferlum sínum gegn svokölluðum sjömenningum í New York.

Þegar nöfnin sem kom fram í tilkynningu sérstaks saksóknara eru borin saman við nöfnin sem komið hafa fram í málaferlunum í New York eru þau hin sömu í mörgum tilvika. Hér er átt við íslensku fyrirtækin/félögin FL Group, fasteignafélagið Stoðir, FS-38 ehf.og Stím auk danska fasteignafélagsins Keops.

Steinunn Guðbjartsdóttir formaður slitastjórnar Glitnis segir að frá því að slitastjórnin tók til starfa hafi hún reglulega sent gögn til sérstaks saksóknara þar sem talið var að um brot á hegningarlögum væri að ræða. Hinsvegar hafi hún ekki haft upplýsingar um aðgerðir sérstaks saksóknara í dag fyrr en hún heyrði um þær í fréttum.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur slitastjórnin stefnt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og sex öðrum fyrir dómstól í New York og krafist 256 milljarða króna skaðabóta. Telur slitastjórnin að sjömenningarnir hafi tekið fé úr bankanum og nýtt það í þágu sína og fyrirtækja sinna. Fyrirtækin sem greint er frá í stefnunni eru m.a. FL Group, Stoðir, FS-38 ehf. og Stím auk Keops.

Málið hefur vakið athygli í erlendum fjölmiðlum og má nefna að danskir fjölmiðlar fjölluðu um það s.l. vor vegna þess að danska fasteignafélagið Keops kemur við sögu. Svo dæmi sé tekið var fyrirsögnin á business.dk um málið „Keops keypt fyrir stolið fé".









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×