Viðskipti innlent

Ársverðbólgan lækkar niður í 6,6%

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs, það er ársverðbólgan, hækkað um 6,6% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 10,9%. Í desember mældist ársverðbólgan 7,5%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,9% sem jafngildir 3,7% verðbólgu á ári (6,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar 2010 er 356,8 stig og lækkaði um 0,31% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 337,9 stig og hækkaði hún um 0,03% frá desember.

Vetrarútsölur eru í fullum gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 10,1% (vísitöluáhrif -0,63%) og verð á húsgögnum, heimilistækjum o.fl. lækkaði um 3,8% (-0,31%). Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 2,9% (-0,37%) og voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,33% en af lækkun raunvaxta -0,04%. Þá lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 21,3% (-0,21%).

Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 5,7% (0,28%) og verð á áfengi og tóbaki hækkaði um 6,3% (0,22%). Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1,0% (0,14%). Þá hækkaði verð á rafmagni og hita um 4,3% (0,11%).

Vísitala neysluverðs á fastskattagrunni (virðisaukaskatti, áfengis- og tóbaksgjaldi, olíugjaldi og orkusköttum á rafmagn og heitt vatn haldið föstum miðað við desember 2009) lækkaði um 1,05% frá fyrra mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×