Viðskipti innlent

Aðhefst ekki frekar vegna kaupa Ívars á Lýsi

Mynd/Stefán Karlsson
Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kaupa fjárfestingarfélagsins Ívars ehf. á 84% hlutafé í Lýsi hf. Fram kemur í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu að Ívar er í óbeinni eigu Fram ehf.

„Samkvæmt samrunaskránni voru kaupsamningur og afsöl dagsett 29. desember 2008. Fullnægði tilkynningin skilyrðum samkeppnislaga og reglna nr. 684/2008 um tilkynningu samruna, en félögum sem ekki starfa á sömu mörkuðum er heimilt að skila styttri tilkynningu skv. 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga vegna samruna. Samkeppniseftirlitið mun í sérstöku máli taka til rannsóknar hvort brotið hafi verið gegn 3. mgr. 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. g lið 37. gr. laganna," segir í tilkynningunni.

Þar segir að Fram esé fjárfestingarfélag sem á hluti í ýmsum félögum. „Helstu fjárfestingar félagsins eru 30% eignarhlutur í Þórsmörk ehf. sem á allt hlutafé Árvakurs hf. útgáfufélags Morgunblaðsins. Þá er 88% eignarhlutur í Ísfélagi Vestmannaeyja í eigu Fram. Samkvæmt heimasíðu Ísfélags Vestmannaeyja er félagið með töluverða aflahlutdeild í ýmsum fisktegundum, m.a. þorski, ýsu og ufsa. Samkvæmt upplýsingum sem nálgast má á vef Fiskistofu fékk Ísfélag Vestmannaeyja úthlutað 2,54% af heildaraflamarki í þorskígildistonnum fyrir fiskveiðiárið 2009-2010."

Lýsi framleiðir ýmsar vörur samkvæmt samrunaskrá. Fram kemur í samrunaskrá að fyrir utan hið hefðbundna þorskalýsi sem selt sé í íslenskum dagvöruverslunum framleiði Lýsi umtalsvert magn fiskiolía til útflutnings. Jafnframt kemur fram í samrunaskránni að samrunaaðilar telja að samruninn muni hafa óveruleg áhrif á samkeppni enda keppi samrunaaðilar ekki á sama markaði auk þess sem viðskipti á milli þeirra eru óveruleg.

„Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið og atvikum öllum í máli þessu telur Samkeppniseftirlitið ekki sé ástæðu til að aðhafast frekar vegna samrunans."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×