Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri Hollands sakar íslensk stjórnvöld um lygar

Nout Wellink aðalbankastjóri Seðlabanka Hollands segir að íslensk stjórnvöld hafi logið að hollenskum stjórnvöldum um fjárhagsstöðu íslensku bankanna árið 2008. Þetta kom fram í máli Wellink þegar hann kom fyrir hollensku þingnefndina sem rannsakar fjármálakreppuna í morgun.

Í frétt á Reuters segir að Wellnik hafi fengið þær upplýsingar frá Seðlabanka Íslands snemma í september að bankinn hefði aðvarað íslensk stjórnvöld um stöðu íslensku bankanna sex mánuðum áður.

Fram kemur í fréttinni að sá sem Wellink talaði við í Seðlabanka Íslands var Davíð Oddsson þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans.

Wellink segir að hann hafi vonað í lengri tíma að íslensk stjórnvöld hefðu bara ekki séð hve staða íslensku bankanna var slæm. Eftir samtalið við kollega sinn í íslenska seðlabankanum hafi hann hinsvegar talið að íslensk stjórnvöld hefðu logið að Hollendingum.

„Í sannleika sagt eftir að hafa heyrt kollega minn segja að hann hefði aðvarað þau (íslensk stjórnvöld) nokkrum mánuðum áður tel ég að þau hafi logið að okkur," segir Wellink.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×