Viðskipti innlent

Íslandssjóðir með bestu ávöxtun í ríkisskuldabréfum

Ríkisverðbréfasjóðir Íslandssjóða, Ríkisskuldabréf - Sjóður 5 og Löng ríkisskuldabréf - Sjóður 7, hafa skilað bestu ávöxtun sambærilegra sjóða yfir nánast öll samanburðartímabil miðað við gengi 30. desember 2009. Þetta kemur fram í óháðum samanburði allra verðbréfasjóða á vefsíðunni www.sjodir.is.

Í tilkynningu segir að í samanburðinum kemur fram að Ríkisskuldabréf - Sjóður 5, sem fjárfestir í meðallöngum ríkisskuldabréfum hefur náð betri ávöxtun en allir sambærilegir sjóðir síðustu 5 ár og er þá sama til hvaða tímabils er horft.

Einnig sést að Löng ríkisskuldabréf - Sjóður 7 hefur sýnt einna bestu ávöxtun eigna síðustu 5 árin meðal sambærilegra sjóða, miðað við gengi sjóðanna 30.12. 2009.

„Síðastliðið ár var hagstætt verðbréfasjóðum sem fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Lækkandi ávöxtunarkrafa á markaði leiddi til hækkandi verðs ríkisverðbréfa og hárrar ávöxtunar á verðbréfasjóðum sem fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Verðtryggðir skuldabréfasjóðir hafa notið vaxandi vinsælda undanfarið enda eru þeir leið fyrir fjárfesta til að fá verðtryggingu á eign sína án þess að binda þurfi upphæðina í mjög langan tíma," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×