Viðskipti innlent

Marel selur hluta af Stork Food Systems

Theo Hoen, forstjóri Marel.
Theo Hoen, forstjóri Marel.

Marel hefur komist að samkomulagi við hollenska fjárfestingafélagið Nimbus um sölu á Food & Dairy Systems deild Stork Food Systems, að undanskilinni starfsemi hennar á Spáni.

Í tilkynningu frá félaginu segir að salan á Food & Dairy Systems, einingu sem starfar utan kjarnastarfsemi fyrirtækisins, sé hluti af áætlun Marel um að leggja áherslu á arðsemi og innri vöxt í kjarnastarfsemi en hún snýr að vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi, auk frekari vinnslu. „Marel er í fararbroddi á heimsvísu, með um 15% markaðshlutdeild, í þróun og sölu á háþróuðum búnaði og kerfum fyrir þessar greinar matvælaiðnaðarins."

Þá segir að bókfært verð eignanna hafi verið fært niður sem veldur tapi upp á 16,4 milljónir evra, aðallega vegna afskrifta viðskiptavildar og endurmetinna eigna, og hefur verið tekið tillit til þess í ársreikningum fyrir 2009.

Theo Hoen, forstjóri Marel segir að markmið félagsins eftir kaupin á Stork Food Systems í maí 2008 hafi verið að auka áherslu á kjarnastarfsemi fyrirtækisins. „Starfsemi Stork Food & Dairy Systems fellur utan þess ramma og hefur einingin því verið skilgreind sem utan kjarnastarfsemi. Stork Food & Dairy Systems hefur gengið í gegnum velheppnaða endurskilgreiningu og endurnýjun á vörulínum fyrirtækisins, þökk sé starfsfólki og hæfileikaríku stjórnendateymi. Við erum þess fullviss að fyrirtækið verði í góðum höndum hjá Nimbus," segir hann.

„Hvað Marel varðar er þetta mjög jákvætt skref í þá átt að auka enn frekar áherslu á kjarnastarfsemi og styrkja stöðu okkar sem markaðsleiðtogi," segir Hoen ennfremur.

Starfsemi Stork Food & Dairy Systems snýr aðallega að þróun, framleiðslu og markaðssetningu á vinnslu- og fyllingarlínum fyrir mjólkurafurðir, ávaxtasafa og fljótandi matvæli. Árið 2009 stóð einingin (að frátalinni starfsemi hennar á Spáni) fyrir 11% af tekjum Marel, með veltu upp á 61 milljónir evra.

Breyta myntsamsetningu sambankaláns

Þá var einnig tilkynnt um það í da að Marel hafi náð samkomulagi við Arion banka, Íslandsbanka og NBI um að breyta myntsamsetningu sambankaláns sem bankarnir veittu félaginu í maí 2009. „Samkomulagið felur í sér að þeim hluta lánsins sem var í íslenskri krónu hefur verið breytt í evru sem er megintekjumynt félagsins. Fjárhæðin sem um ræðir nemur 66 milljónum evra," segir í tilkynningu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×