Viðskipti innlent

Frestun S&P kann að hafa lækkað skuldatryggingaálagið

Greining Íslandsbanka segir að svo kunni að vera að jákvæð tíðindi á borð við framlengingu frests Standard&Poor´s (S&P) á því að taka ákvörðun um lánshæfiseinkunn Íslands og aukinn stuðning við málstað landsins í Icesave á erlendri grundu hafi einhver áhrif á lækkandi skuldatryggingaálags ríkissjóðs.

Eins og greint var frá hér á síðunni í gær fer nú skuldatryggingaálag á ríkissjóð aftur lækkandi eftir miklar hækkanir í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands í upphafi síðasta mánaðar að vísa Icesave málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgnkorni sínu. Þar segir að frá áramótum hefur athygli evrópskra fjárfesta í auknum mæli beinst að þeim löndum evrusvæðis sem á brattann eiga að sækja hvað varðar opinber fjármál á komandi misserum. Þar er Grikkland efst á lista.

Fjárlagahalli Grikkja nam 12,7% af vergri landsframleiðslu (VLF) í fyrra og talið er að skuldir gríska ríkisins muni nema 135% af VLF í lok næsta árs. Hafa aðgerðir stjórnvalda þar í landi til þess að snúa þessari óheillaþróun við ekki þótt nægilega trúverðugar enn sem komið er.

Skuldatryggingarálag til 5 ára á Grikkland er nú 423 punktar en var 280 punktar í upphafi árs. Í kjölfarið hafa fjárfestar svo beint sjónum að fleiri evruríkjum í áþekkri stöðu. Þannig hefur 5 ára skuldatryggingarálag á Portúgal ríflega tvöfaldast frá áramótum og álagið á Spán hækkað um tæp 50% á sama tíma. Álagið á fyrrnefnda landið er nú 227 punktar, en 168 punktar á það síðarnefnda.

Þróun íslenska skuldatryggingarálagsins virðist nú eiga meiri samleið með almennri þróun skuldaálags í Evrópu en álagi á suðræn vandamálaríki evrusvæðis þessa dagana. Þannig hækkaði ITRAXX Europe vísitalan, sem mælir meðalálag á skuldir stórra fyrirtækja í Evrópu, verulega í janúar en hafði snemma í morgun lækkað lítillega frá upphafi febrúarmánaðar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×