Viðskipti innlent

Neytendur enn fremur svartsýnir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kringlan er oft fjölsótt þrátt fyrir litlar væntingar neytenda. Mynd/ Daníel.
Kringlan er oft fjölsótt þrátt fyrir litlar væntingar neytenda. Mynd/ Daníel.
Íslenskir neytendur eru enn langt í frá því að teljast vera bjartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun. vísitalan var 43,2 stig í mars og lækkar um 3 stig á milli mánaða. Greining Íslandsbanka segir að vísitalan sé nokkuð hærri en hún hafi að jafnaði verið frá hruni bankanna og því sé eitthvað bjartara yfir landanum nú en undanfarin misseri.

Greining segir að mat á núverandi ástandi í efnahags- og atvinnumálum haldist nánast óbreytt frá síðustu mælingu og mælist áfram afar lágt, eða 7,9 stig. Væntingar til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði versna á hinn bóginn um 5 stig, eða úr 71,8 stigum í 66,8 stig. Því sé ljóst að minni væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði skýri lækkun vísitölunnar nú sem sé öfugt við það sem verið hefur í mælingum síðustu mánuði en þá hafi væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði leitt til þess að vísitalan hefur hækkað enda hefur mat á núverandi ástandi haldist nokkuð stöðugt síðustu misseri líkt og nú.

Könnun Gallup bendir til að tæplega 82% svarenda telji að efnahagsástandið sé slæmt um þessar mundir og rúm 54% þeirra telji að atvinnumöguleikar séu litlir. Þá telji rúm 38% svarenda að efnahagsástandið verði verra eftir 6 mánuði og um 26% að atvinnumöguleikarnir verði minni eftir þann tíma. Þetta eru nokkuð hærri hlutföll en niðurstöður könnunnar Gallup leiddu í ljós í febrúarmánuði en þá töldu um 34% svarenda að efnahagsástandið yrði verra eftir 6 mánuði og um 23% að atvinnumöguleikar yrðu minni eftir þann tíma. Þó telja færri nú en í febrúar að tekjur heildartekjur þeirra muni lækka á næstu 6 mánuðum, eða um 29,4% á móti 33,5%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×