Viðskipti innlent

Færri gjaldþrot í febrúar en í sama mánuði í fyrra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kringlan. Mynd/ Daníel.
Kringlan. Mynd/ Daníel.
Gjaldþrotum fyrirtækja fækkaði um 7% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra. Alls voru 82 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í síðasta mánuði en 88 í febrúar í fyrra.

Flest gjaldþrot voru hjá fyrirtækjum á sviði heild- og smásöluverslunar og viðgerða á vélknúnum ökutækjum, eftir því sem fram kemur á vef Hagstofunnar. Fyrstu tvo mánuði ársins 2010 er fjöldi gjaldþrota 185 sem er tæplega 13% aukning frá sama tímabili árið 2009 þegar 161 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta.

Í febrúar 2010 voru skráð 148 ný einkahlutafélög (ehf) samanborið við 236 einkahlutafélög í febrúar 2009, sem jafngildir rúmlega 37% fækkun milli ára. Einnig voru skráð 64 samlagsfélög (slf) í febrúar. Heildarfjöldi nýskráðra einkahlutafélaga er því 305 fyrstu tvo mánuði ársins og hefur nýskráningum fækkað um tæplega 36% frá sama tímabili árið 2009 þegar 459 ný einkahlutafélög voru skráð. .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×