Viðskipti innlent

Hvetja lántakendur til að láta þriðja aðila endurreikna lán

Gísli Kr. Björnsson lögfræðingur segir að það sé mikilvægt að einstaklingar og fyrirtæki með lán bundin gengistryggingu láti ekki fjármálafyrirtæki um einhliða endurútreikninga á lánum. Í tilkynningu sem hann hefur sent fjölmiðlum segir hann að sýna þurfi mikla aðgæslu varðandi útreikninga í endurreikningum á erlendum lánum.

Tilkynningin í heild sinni:

Einstaklingar og fyrirtæki sem standa nú frammi fyrir því að endurreikna þarf erlend lán þeirra eiga að sýna mikla aðgæslu, varðandi útreikningana. Lagarök, lögmannsstofa sem hefur annast hagsmunagæslu fyrir fjölda fólks í greiðsluvanda, þykir rétt að vekja sérstaka athygli á þessu og varar fólk eindregið við því að láta fjármálafyrirtækin sjá einhliða um uppgjörsreikninga.

Í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum SP Fjármögnunar hf og Lýsingar hf hafa forsvarsmenn bílalánafyrirtækjanna sent frá sér yfirlýsingar þess efnis að uppgjörsútreikningar standi yfir og að lántakendum verði tilkynnt um niðurstöðu þeirra. Við þessar aðstæður ber að stíga afar varlega til jarðar, enda ljóst að vafi leikur ýmsum þáttum lána sem eru tengd við erlenda gjaldmiðla. Lagarök lögmannstofa hvetur því einstaklinga og forsvarsmenn fyrirtækja sérstaklega til þess að krefjast þess að fá að eiga aðkomu að þessu ferli lánastofnana, enda byggir áframhald hvers og eins samnings á tvíhliða samningagerð lántakenda við hvert það lánafyrirtæki sem í hlut á.

Loks benda Lagarök á að aðkoma ríkisstjórnarinnar að uppgjörinu er varhugaverð þar sem hún á ekki aðild að málunum, heldur byggja þau á reglum einkamálaréttarins. Yfirlýsingar þess efnis hafa verið sendar frá núverandi ríkisstjórn ítrekað varðandi lausn á skuldavanda heimilanna og því fæst ekki séð að þessi breytta staða geti breytt aðildarskorti






Fleiri fréttir

Sjá meira


×