Viðskipti innlent

Pálmi „sat uppi með svarta pétur“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Pálmi Haraldsson. Skiptastjóri þrotabús Fons, sem var í eigu Pálma, hefur hafnað kröfum Glitnis vegna framvirkra saminga.
Pálmi Haraldsson. Skiptastjóri þrotabús Fons, sem var í eigu Pálma, hefur hafnað kröfum Glitnis vegna framvirkra saminga.

Pálmi Haraldsson, sem átti Fons eignarhaldsfélag, hafnar því að nokkuð fé hafi runnið frá Glitni banka til Fons dagana 5. september til 8. október 2008, rétt fyrir og eftir að FME tók bankann yfir. Þá hefur skiptastjóri þrotabús Fons hafnað kröfum Glitnis.

„Árið 2007 skuldaði Fons Glitni ekki neitt. Þá gerist það að Gnúpur fer á hliðina. Það sem gerist er að Glitnir hafði lánað þessu fyrirtæki gríðarlegar fjárhæðir og situr uppi með öll hlutabréfin í FL Group. Þeir leituðu logandi ljósi að kaupendum. Mér var boðin sölutrygging á hlutabréfunum mínum í Skeljungi gegn því að kaupa hlutabréfin. Ég gekk að þessu tilboði en hefði betur sleppt því," segir Pálmi Haraldsson, en meðal krafna Glitnis í þrotabú Fons eru kröfur upp á 7,2 milljarða króna vegna samninga sem voru gerðir dagana 5. september til 8. október 2008.

Tilboðið sem Pálmi fékk hjá Glitni var þannig að Glitnir sölutryggði allt hlutafé Fons í Skeljungi fyrir 8,7 milljarða króna í desember 2007. Daginn eftir að sölutryggingin var veitt lánaði Glitnir Fons um 10,3 milljarða til að kaupa hlutabréf í FL Group.

„Ég keypti bréfin í FL Group og sat uppi með svarta pétur. Í kjölfarið voru gerðir framvirkir samningar um kaup á hlutabréfum og alls kyns aðrir snúningar. Mér voru seldar fjármálaafurðir í Glitni banka. Það runnu engir fjármunir til Fons á tímabilinu 5. september - 8. október. Það veit ég, það veit Vilhjálmur Bjarnason og það veit skiptastjóri þrotabúsins. Allt annað er hreinn og beinn tilbúningur. Það ber að taka skýrt fram að skiptastjóri þrotabúsins hafnaði þessum kröfum Glitnis," segir Pálmi Haraldsson.

Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, staðfesti orð Pálma og sagði í samtali við fréttastofu að kröfum vegna samninga um framvirk hlutabréfaviðskipti hafi verið hafnað af þrotabúinu. Um er að ræða samtals kröfur upp á 8,3 milljarða króna, en höfuðstóll kröfunnar er samtala samninganna, sem voru gerðir 5. september til 8. október 2008, alls 7,2 milljarðar króna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×