Handbolti

Maximov spáir Frökkum og Svíum í úrslitaleikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vladimir Maximov, landsliðsþjálfari Rússlands.
Vladimir Maximov, landsliðsþjálfari Rússlands. Nordic Photos / AFP

Vladimir Maximov, landsliðsþjálfari Rússlands í handbolta, spáir því að það verði Frakkland og Svíþjóð sem muni mætast í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar sem hefst þann 13. janúar næstkomandi.

Frakkland er ríkjandi heims-, Evrópu- og Ólympíumeistari en Svíar verða á heimavelli í keppninni. Svíþjóð er gamalt stórveldi í handboltanum en hefur ekki unnið til verðlauna á stórmóti síðan 2002.

„Það er enginn vafi á því að Frakkland er með sterkasta liðið," sagði Maximov. „Það hafa þeir sýnt margoft síðustu árin."

„Svíar hafa beðið lengi eftir góðum árangri á stórmóti en þeim hefur ekki tekist að fylgja eftir frábærum árangri sem Bengt Johansson náði á sínum tíma sem landsliðsþjálfari."

„En með smá heppni, stuðningi áhorfenda og jafnvel dómara líka gætu Svíar komist alla leið í úrslitaleikinn."

„Ef ég ætti að nefna eitt lið til viðbótar væri það líklega Pólland," bætti Maximov við.

Rússar verða ekki með á HM að þessu sinni en þeir urðu heimsmeistarar síðast þegar keppnin var haldin í Svíþjóð, árið 1993. Annars hafa þeir ávallt verið með á HM síðan að Sovétríkin leið undir lok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×