Viðskipti innlent

Kröfur á Kjalar afskrifaðar í efnahagsreikningi Arion banka

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson.

Skuldir Kjalars við Arion banka hafa verið afskrifaðar að nánast öllu leyti í bókum Arion banka en fyrirtækið skuldaði bankanum 88 milljarða króna á núvirði. Taka ber skýrt fram að þetta þýðir ekki að bankinn mun ekki að reyna að efna kröfuna á Kjalar.

Samkvæmt lánabók Kaupþings banka skulduðu félög tengd Ólafi Ólafssyni alls 115 milljarða króna í september 2008. Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að skuldir Kjalars við Arion banka, sem voru 88 milljarðar króna, hafi nú verið afskrifaðar nánast að öllu leyti í efnahagsreikningi bankans. Áttatíu og átta milljarðar króna eru í grófum dráttum jafnvirði 2500 fjögurra herbergja íbúða á góðum stað í Reykjavík.

 

Félag Ólafs og stjórnenda Samskipa, SMT Partners BV, gerði nýlega samning um endurskipulagningu Samskipa sem fól í sér að fyrirtækið eignaðist Samskip gegn því að leggja fram nokkuð hundruð milljónir króna. SMT Partners er skráð í Hollandi og þaðan er viðskeytið B.V til komið en hlutafélög þar í landi eru skráð með þessum hætti.

 

Ekki er óeðlilegt að almenningur velti því nú fyrir sér hvers vegna Ólafur, sem hefur stöðu sakbornings í rannsókn sérstaks saksóknara á hlutabréfakaupum sjeiksins Al-Thani í Kaupþingi, hafi fengið að kaupa Samskip á meðan bankinn gerir ekki ráð fyrir að fá neitt upp í 88 milljarða króna kröfu á hendur félagi í hans eigu.

 

Arion banki hefur svarað þessu til þannig að í tilfelli Samskipa hafi engar skuldir verið afskrifaðar og að um hafi verið að ræða ferli sem fól í sér aðkomu margra kröfuhafa sem hafi talið hag sínum best borgið með þeirri niðurstöðu að afhenda Ólafi Samskip á ný.

Endurskipulagningarferli Samskipa var leitt af Fortis-bankanum sem átti veðtryggðar kröfur á Samskip. Samskip fékk lán hjá Kaupþingi á sínum tíma sem var ekki jafn vel veðtryggt og lán Fortis-banka, en um var að ræða tengda aðila þar sem eigandi Samskipa, Ólafur Ólafsson, var næststærsti hluthafi Kaupþings.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×