Viðskipti innlent

Fleiri tækifæri eftir kreppuna

John Conroy rýnir í plögg með þeim Halldóri J. Krist­jánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjórum, þegar Landsbankinn keypti Merrion fyrir fimm árum.
John Conroy rýnir í plögg með þeim Halldóri J. Krist­jánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjórum, þegar Landsbankinn keypti Merrion fyrir fimm árum.

John Conroy, forstjóri írska verðbréfafyrirtækisins Merrion Capital, hefur sagt starfi sínu lausu og tekið við stýrinu á fyrirtækjasviði fyrirtækisins. Í myndinni er að hann kaupi helmingshlut í þessum hluta Merrion Capital.  Írska dagblaðið Independent hafði eftir Conroy í síðustu viku að fjármögnunarþörf írskra fyrir­tækja sé nú mikil og vilji hann einbeita sér að þeim markaði.

John Conroy fór fyrir hópi stjórnenda Merrion Capital sem keypti rekstur fyrirtækisins af skilanefnd Landsbankans eftir fall bankanna í október 2008. Þeir greiddu fyrir þrjátíu milljónir evra, jafnvirði í kringum sex milljarða króna á þávirði. Það er þriðjungur af því sem Landsbankinn greiddi fyrir fyrirtækið á sínum tíma.

Landsbankinn hóf að kaupa hlutabréf í Merrion árið 2005 og átti undir það síðasta 84 prósenta hlut í verðbréfafyrirtækinu. Starfsmenn Merrion áttu hlut í félaginu og högnuðust þeir nokkuð á viðskiptunum. Talið er að hlutur Conroys hafi numið á bilinu 5,5 til 8,3 milljónum evra. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×