Viðskipti innlent

Banki í gjaldeyrisbraski

Grunur leikur á að banki sem er starfandi hér á landi hafi misnotað undanþágu á gjaldeyrishöftunum til að hagnast á því. Málið er nú til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra.

Seðlabankinn hefur sent nokkur mál er varða grun um brot gegn gjaldeyrishaftalögunum til Fjármálaeftirlitsins sem svo hefur vísað málum til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Samkvæmt heimildum hafa níu mál farið þessa leið en það nýjasta hefur nýlega verið sent yfir til efnahagsbrotadeildar. Það hefur nokkra sérstöðu þar viðskiptamaðurinn í braskinu er banki sem er starfandi hér á landi. Ekki fást upplýsingar um hvaða banka er um að ræða en málið varðar meinta misnotkun á heimild erlendra aðila til að skipta vöxtum á skuldabréfum í erlendum gjaldeyri. Grunur leikur á að bankinn hafi ranglega skráð skuldabréf á erlent dótturfélag í því skyni að geta nýtt þessa heimild til að skipta vöxtunum. Dótturfélagið er staðsett í Bretlandi.

Viðskiptin, sem áttu sér stað á fyrri helming síðasta árs, námu um hálfri milljón evra eða rúmlega 80 milljónum íslenskra króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×