Viðskipti innlent

„Erfiðar stundir“ í yfirheyrsluherbergi Glitnis

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Slitastjórn Glitnis er með sérstakt yfirheyrsluherbergi til að yfirheyra fyrrverandi starfsmenn og aðra um ýmis vafasöm mál í rekstri Glitnis. Á annan tug manna hefur verið yfirheyrður, allt var tekið upp á myndavél og formaður slitastjórnar neitar því ekki að sumir hafi brostið í grát við skýrslutökur.

Slitastjórnin hefur yfirheyrt á annan tug manna í yfirheyrsluherberginu og helmingur þeirra hafði lögmann sinn meðferðis. Steinunn Guðbjartsdóttir, hrl. og formaður slitastjórnar Glitnis banka, segir að skýrslutökurnar hafi reynst mikilvægar til að upplýsa um ýmis mál í bókhaldi Glitnis. Þær hafa varpað ljósi á og útskýrt ýmsa samninga sem vakið hafa spurningar.

„Við höfum fengið mun skýrari mynd á atburðarásina í gegnum þessar skýrslutökur," segir Steinunn. Hún segir að slitastjórnin þurfi að skoða fjölmörg atriði nánar. M.a hluti sem geta leitt til skaðabótaskyldu, riftana á samningum eða opinberra rannsókna. „Og þessum málum verður fylgt eftir," segir Steinunn.

Slitastjórnin hefur þurft að yfirheyra fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur Glitnis í herberginu, oftast í viðurvist lögmanns viðkomandi. Menn hafa átt tilfinningaþrungnar stundir í yfirheyrslunum, en hafa tár fallið? „Ja, menn hafa átt erfiðar stundir hérna", segir Steinunn.

 

 

 

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×