Viðskipti innlent

Stjórnarformaður Marel fái 700 þúsund í mánaðarlaun

Á aðalfundi Marel sem haldinn verður í upphafi næsta mánaðar verður lögð fram tillaga um að stjórnarlaun vegna ársins 2010 verði óbreytt frá fyrra ári. Því mun stjórnarformaður fá 4.000 evrur eða rétt tæp 700 þúsund kr. á mánuði.

Samkvæmt tillögunni mun varaformaður stjórnar fá 2.400 evrur á mánuði og aðrir stjórnarmenn fá 1.600 evrur hver á mánuði. Stjórnarlaun skulu greidd 15. dag hvers mánaðar.

Af öðrum tillögum sem lagðar verða fyrir aðalfundinn má nefna að stjórn Marel leggur til við aðalfund að félaginu verði heimilt, í samræmi við hlutafélagalög að kaupa allt að 10% af eigin hlutafé á gengi sem sé ekki hærra en 10% yfir og ekki lægra en 10% undir skráðu meðalgengi bréfa félagsins tveimur vikum á undan kaupunum. Heimild þessi gildi næstu 18 mánuði frá samþykki. Eldri heimildir þessa efnis falli jafnframt niður.

Þá er lagt til að stjórnin hafi heimild til útgáfu nýrra hluta í tengslum við kaupréttarsamninga starfsmanna að nafnverði allt að 45 milljónir kr. og gildi heimildin í sex ár frá samþykki hennar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×