Viðskipti innlent

LSR tapaði máli gegn Straumi í héraðsdómi

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) tapaði í dag máli gegn Straumi í Héraðsdómi Reykjavíkur. LSR gerði kröfu um að tæplega 300 milljónir kr. sem sjóðurinn átti inni hjá Straumi þegar sá banki komst í þrot yrðu metnar sem forgangskrafa. Á það félst dómarinn ekki.

Forsaga málsins er sú að LSR átti í fórum sínum skuldabréf útgefið af Straumi upp á 200 milljónir kr. að nafnverði. Þann 25. og 26. febrúar var bréfinu rift með þeim hætti að uppreiknað verðimæti þess upp á 296,5 milljónir kr. var breytt í innlán hjá Straumi.

Slitastjórn Straums ákvað að þessi krafa ætti að flokkast sem almennar kröfur í þrotabú Straums en því undi LSR ekki. Í málinu fór Straumur svo fram á að fyrrgreind riftun skuldabréfsins yrði staðfest og kröfu LSR um að upphæðin yrði gerð að forgangskröfu hafnað.

Í dómsorði segir að..." staðfest er riftun á uppgreiðslu skuldabréfs í eigu sóknaraðila, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, A-deild, útgefnu af varnaraðila, Straumi-Burðarási fjárfestinga­banka hf... með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 296.463.931 krónu, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 296.463.931 króna ásamt áföllnum vöxtum til 22. apríl 2009 verði við slitameðferð varnaraðila viðurkennd sem forgangskrafa ... Staðfest er að krafa sóknaraðila hafi stöðu almennra krafna ...

Málskostnaður fellur niður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×