Viðskipti innlent

Íslandsbanki verður seldur hæstbjóðanda

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Enginn þeirra sem eiga stærstu kröfurnar á Glitni vill til frambúðar eiga 95 prósenta hlut í Íslandsbanka. Skilanefnd Glitnis hefur því sett bankann í söluferli og hefur falið svissneska bankanum UBS að vera ráðgefandi við söluna. Bankinn er talinn vera 100 milljarða króna virði.

Framtíðarverkefni skilanefndar Glitnis munu felast í því að hámarka virði eigna Glitnis, innheimta og greiða aftur til lánardrottna. Mikill árangur hefur náðst en skilanefndin hefur þegar lokað útibúum og dótturfélögum eða selt þau í tíu löndum og í flestum þessara útibúa hafa allar skuldbindingar í viðkomandi löndum verið greiddar. Nú hefur verið tekin ákvörðun um sölu á 95 prósenta hlut skilanefndarinnar Glitnis í Íslandsbanka, en skilanefndin á hlutinn í gegnum sérstakt dótturfélag sitt ISB Holding.

„Við höfum mikinn áhuga á því að hámarka verðmæti þessa eignarhluta eins og annarra. Og við erum búin að fá erlendan ráðgjafa til að horfa eftir framtíðareiganda að Íslandsbanka," segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis.s Árni er þarna vísa til svissneska bankans UBS sem verður ráðgefandi við söluna. Söluferlið verður í samráði við stjórnvöld og vonir standa til að því ljúki á næstu þremur til fimm árum.

„Við mátum verðmæti Íslandsbanka í síðasta uppgjöri í kringum 100 milljarða króna fyrir þennan 95 prósenta eignarhluta," segir Árni. Kröfuhafar Glitnis hafa engin áhrif á daglegan rekstur eða framtíð Íslandsbanka. Og þeir vilja komast út. Er stemmningin í kröfuhafahópnum sú að að fæstir vilja vera langtímaeigendur að Íslandsbanka og vilja frekar selja hann og fá upp í kröfur sínar? „Já, það er þeirra meginmarkmið," segir Árni. Hann segir að kröfuhafarnir hafi mestan áhuga á því að verðmæti Íslandsbanka vaxi og þeir nái að selja hann aftur fyrir hærra verð innan „ekki mjög langs tíma."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×