Viðskipti innlent

Húsnæðisliður vísitölunnar veldur vandræðum við spár

Undanfarin misseri hefur spágeta vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Fasteignaskrá Íslands birtir dalað umtalsvert og hefur fylgnin frá mánuði til mánaðar verið afar lítil eða nánast engin undanfarið eitt og hálft ár.

Ástæðan virðist aðallega felast í því að fjöldi makaskiptasamninga hefur aukist til muna en Fasteignaskrá Íslands sleppir slíkum samningum í útreikningum á sinni íbúðaverðsvísitölu á meðan Hagstofan tekur slíka samninga með og núvirðir þá til staðgreiðsluverðs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Fasteignaskrá Íslands birtir mánaðarlega hefur oft verið notuð sem vísbending um hvert húsnæðisliður vísitölu neysluverðs hefur stefnt í næstu mælingu. Vísitalan hefur verið birt nokkuð á undan vísitölu neysluverðs og því þótt hentug vísbending.

Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs er breyting í þriggja mánaða hreyfanlegum glugga í verði íbúðarhúsnæðis. Gildið sem Hagstofan birti í gær er þannig breytingin á milli meðalverðs húsnæðis annars vegar á tímabilinu október til desember í fyrra og hins vegar nóvember í fyrra og janúar í ár.

Febrúarmælingin sýndi ríflega 0,03% hækkun íbúðaverðs á landinu öllu. Á sama tíma sýnir vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu reiknað sem þriggja mánaða hlaupandi meðaltal, álíka og Hagstofan reiknar sína vísitölu, 1.1% lækkun. Munurinn er sláandi mikill og ekkert einsdæmi þegar horft er til mælinga undanfarinna missera.

Hlutfall makaskiptasamninga af heildarfjölda viðskipta á fasteignamarkaði jókst verulega um mitt ár 2008. Hefur hlutfall þessara samninga verið ríflega 30% af heildarfjölda kaupsamninga með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma. Í ofangreindri vísitölu Fasteignaskrár Íslands er þessum samningum sleppt.

Þegar það bætist síðan við að vísitala Hagstofunnar á við landið allt en vísitala Fasteignaskrárinnar einungis höfuðborgarsvæðið er niðurstaðan sú að sú síðari er nær ónothæf vísbending um með hvaða hætti húsnæðisliður vísitölunnar kemur til með að þróast í næstu mælingu vísitölu neysluverðs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×