Viðskipti innlent

Það sem hefur verið afskrifað er aðeins toppurinn á ísjakanum

Valur Grettisson skrifar
Steinþór Pálsson.
Steinþór Pálsson.

„Við erum með fleiri hundruð milljarða sem á eftir að afskrifa," sagði bankastjóri Landsbankans, Steinþór Pálsson, í viðtali við Þórhall Gunnarsson í þættinum Návígi í Ríkissjónvarpinu í kvöld.

Þórhallur gekk hart á Steinþór vegna afskrifta á skuldum Jakobs Valgeirs Flosasonar útgerðarmanns en hann kom meðal annars að Stím málinu umdeilda. Þá liggur fyrir að Jakob hefur fengið milljarða afskrifaða hjá hinum ýmsu aðilum.

Þórhallur spurði Steinþór hvort þetta stæðist þá siðferðislegu ábyrgð sem bankinn hefði gagnvart samfélaginu og Steinþór sagði svo vera. Hann sagði siðferðislegu spurninguna alltaf erfiða þegar kæmi að því að afskrifa skuldir til þess að tryggja bestu útkomuna fyrir bankann.

Hann sagði bankann í rauninni standa frammi fyrir syndum gömlu bankanna: „Lánastarfsemin fyrir hrun var skrítin," sagði Steinþór.

Steinþór minnti á að sérstök eftirlitsnefnd, sem Alþingi skipaði, hefði eftirlit með bankanum „og þeir gefa okkur góða umsögn varðandi jafnræði," sagði Steinþór og átti við jafnræði á milli viðskiptavina.

Þá áréttaði Steinþór að afskriftir væru ekki gjöf til viðkomandi sem fengi afskrifað. Bankinn skildi í raun fyrirtækin eftir skuldsett, en eingöngu þannig að fyrirtækin yrðu lífvænlega í framtíðinni.

Hann sagði það mikilvægt fyrir samfélagið og bankann að sum fyrirtæki fengu að lifa áfram, meðal annars með tilliti til þeirra starfa sem gætu tapast ef fyrirtækin færu í þrot.

Steinþór sagði bankann hafa möguleikann á því að setja þúsundir fyrirtækja í þrot. Það væru þó ekki góð viðskipti.

Þórhallur spurði svo Steinþór í lok viðtalsins aftur um hinar gríðarlegu afskriftir sem eru fyrirhugaðar.

Steinþór svaraði því til að þarna væri um fleiri hundruð milljarða afskriftir að ræða og tók undir orð Þórhalls um að það sem hefur verið afskrifað væri aðeins toppurinn á ísjakanum.

„Já, vegna þess hvernig lánabækurnar voru," sagði Steinþór.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×