Viðskipti innlent

Lög hindruðu lífeyrissjóði í upprunalegum tillögum

Lög heimila lífeyrissjóðum alls ekki að samþykkja upphaflegar hugmyndir stjórnvalda um að fella niður skuldir sjóðfélaga, að gefa með öðrum orðum eftir innheimtanlegar kröfur að óbreyttum lögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lífeyrissjóðunum vegna viljayfirlýsingar um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Landssamtök lífeyrissjóða fagna þeim skrefum sem stigin eru með fyrirliggjandi viljayfirlýsingu en minna jafnframt á að hver og einn lífeyrissjóður á að sjálfsögðu síðasta orðið um aðild sína að samkomulagi sem gert verður á grundvelli yfirlýsingarinnar. Miðað er við að formsatriðum samkomulagsins ljúki fyrir miðjan desember og að því búnu taki hver lífeyrissjóður afstöðu til þess.

Í tilkynningunni segir m.a. að í opinberri umræðu í aðdraganda fyrirliggjandi viljayfirlýsingar hefur mátt sjá og heyra að það hafi „strandað á lífeyrissjóðum" að áfangi dagsins náðist ekki fyrr en raun ber vitni. Þetta má til sanns vegar færa í ákveðnum skilningi en skýrist af þeirri einföldu staðreynd að lífeyrissjóðir eru eign sjóðfélaga, hvort sem þeir skulda mikið, lítið eða ekki neitt.

Stjórnum og stjórnendum sjóðanna ber að gæta hagsmuna sjóðfélaga sinna og umfram allt að virða lög. Það er einmitt kjarni máls hvað varðar meintar tafir af völdum Lífeyrissjóða í aðdraganda viljayfirlýsingarinnar.

Lög heimila lífeyrissjóðum alls ekki að samþykkja upphaflegar hugmyndir stjórnvalda um að fella niður skuldir sjóðfélaga, að gefa með öðrum orðum eftir innheimtanlegar kröfur að óbreyttum lögum.

Stjórnarmenn lífeyrissjóða gætu bakað sér ábyrgð með því að mismuna umbjóðendum sínum á þann hátt að skuldlausir sjóðfélagar þyrftu að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda í þágu skuldugra sjóðfélaga í sama lífeyrissjóði.

Aðgerðir í þágu skuldugra, eins og gert er nú ráð fyrir þeim í viljayfirlýsingunni, standast lög og kalla ekki á skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Fulltrúar lífeyrissjóða vildu fá vissu fyrir því að þeim væri fært að samþykkja aðild að viljayfirlýsingunni í núverandi mynd. Slíka staðfestingu fengu þeir fyrst hjá Fjármálaeftirlitinu síðastliðinn miðvikudag, 1. desember.

Miðað er við að formsatriðum samkomulagsins ljúki fyrir miðjan desember og að því búnu taki hver lífeyrissjóður afstöðu til þess.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×