Viðskipti innlent

Actavis lýtur nú stjórn Deutsche Bank

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Actavis lýtur nú stjórn Deutsche Bank. Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar og eigandi Actavis, hefur þó ekki misst eignarhald á félaginu.

Novator, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, keypti út aðra hluthafa í Actavis árið 2007. Um var að ræða stærstu yfirtöku Íslandssögunnar og fékk Björgólfur langstærstan hluta kaupverðsins að láni hjá þýska bankanum Deutsche Bank.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að Actavis lúti nú stjórn Deutsche Bank og að allar meginákvarðanir séu háðar samráði og jafnvel frumkvæði þýska bankans. Morgunblaðið segir að það sé áhugi fyrir því hjá Deutsche Bank að Björgólfur komi áfram að rekstri fyrirtækisins. Í kjölfar endurskipulagningar skulda muni þá í staðinn koma meira til en vaxtagreiðslur til handa bankanum, jafnvel aukin hlutdeild í hagnaði.

Síðasta árið hefur Acavis verið í söluferli en Björgólfur Thor hefur ekki fengið viðunandi verð fyrir fyrirtækið eftir hrun hlutabréfamarkaða. Opnað var sérstakt gagnaherbergi hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Merrill Lynch á síðasta ári en frá því var greint í fjölmiðlum á síðasta ári að kaupverðið sem Björgólfur vildi fá fyrir fyrirtækið væri á bilinu 6-8 milljarðar evra. Financial Times greindi frá því að skuldir Novators við Deutsche Bank næmu 5 milljörðum evra vegna yfirtökunnar á Actavis, en það eru tæplega 900 milljarðar króna á núverandi gengi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×