Viðskipti innlent

Borgin tapaði 88 milljónum á fyrsta ársfjórðungi

Samkvæmt árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fyrir fyrsta ársfjórðung ársins er niðurstaða A hluta fyrir fjármagnsliði neikvæð um 509 milljónir króna og rekstrarniðurstaða neikvæð um 88 milljónir króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að óendurskoðaður árshlutareikningur A hluta Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar - mars 2010 var lagður fram í borgarráði 10. júní 2010.

Í reikningnum kemur fram að fjármagnsliðir voru jákvæðir um rúmlega 420 milljónir kr. og að handbært fé frá rekstri nemur rúmlega 13,3 milljörðum kr.

Til A hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, og Eignasjóð.

Í fjárhagsáætlun fyrir tímabilið janúar - mars 2010 fyrir A hluta var gert ráð fyrir því að niðurstaða fyrir fjármagnsliði yrði neikvæð um 520 milljónir króna og rekstrarniðurstaða tímabilsins neikvæð um 80 milljónir króna. Niðurstaðan er því ívið betri en áætlunin.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×