Viðskipti innlent

Seðlabankinn keypti krónueignir á aflandsgengi

Seðlabanki Íslands fékk krónueignir þær sem hann keypti af Seðlabankanum í Lúxemborg á aflandsgengi eða um 250 kr. fyrir evruna. Evran hefur fallið töluvert að undanförnu og er hið opinbera gengi hennar nú skráð rétt rúmlega 160 kr.

Seðlabanki Íslands og íslenska ríkið njóta því hagstæðari gengiskjara í kaupum sínum á krónueignum frá Seðlabankanum í Lúxemborg en opinbert gengi krónunnar segir til um.

Íslensku skuldabréfin sem Seðlabankinn og íslenska ríkið kaupa af Seðlabankanum í Lúxemborg eru greidd með 402 milljóna evra skuldabréfi útgefnu af ríkissjóði til fimmtán ára, 35 milljónum evra í reiðufé og 6 milljörðum króna í reiðufé.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á símafundi með blaðamönnum í morgun að ekkert gengi væri skráð í viðskiptunum, þar sem þau færu ekki fram í gegnum skipulagðan gjaldeyrismarkað.

Miðað við ofangreindar forsendur má þó reikna út að 250 krónur fást í skiptum fyrir eina evru. Samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans er evran 160 krónur í dag. Gengið í viðskiptunum er hins vegar nálægt aflandsgengi krónunnar.

Þetta er jákvætt fyrir skattgreiðendur í ljósi þess að skuldabréfið er útgefið af ríkissjóði, sem segja má að njóti afsláttarkjara við kaup á krónueignum frá Seðlabankanum í Lúxemborg.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×