Viðskipti innlent

Vill hálfan milljarð í ógreiddan bónus og ágreiningur fer fyrir dóm

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steinþór Gunnarsson sem gerir nú kröfu um að þrotabú Landsbankans greiði sér hálfan milljarð króna í ógreiddan bónus sem greiða átti árið 2007 fékk sama ár rúmlega tvö hundruð milljónir krónar greiddar í bónus. Dæmi eru um að sviðið sem hann stýrði hafi greitt bónusa sem voru hærri en tekjur sviðsins á sama tímabili.

Steinþór er fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, sem var sjálfstætt svið undir verðbréfasviði bankans. Steinþór lýsti tveimur kröfum upp á samtals 490 milljónir króna í þrotabú Landsbankans. Báðar greiðslurnar eru vegna vangreiddra bónusgreiðslna sem Steinþór telur sig eiga inni hjá hinum gjaldþrota banka. Að sögn Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Steinþórs, er um að ræða samningsbundnar greiðslur sem átti að inna af hendi hinn 1. desember 2007.

Slitastjórn Landsbankans sem er í raun eiginlegur skiptastjóri þrotabús bankans, hafnaði kröfum Steinþórs. Hann hefur mótmælt þeirri niðurstöðu og verður ágreiningur um kröfurnar borinn undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er að finna forvitnilegar upplýsingar um bónusgreiðslur til Steinþórs og sviðsins sem hann stýrði. Þar kemur fram að árin 2004 og 2005 voru upphæðir bónusa þær sömu þótt tekjur væru breytilegar. Eins má finna tilvik þar sem tap er á rekstri sviðsins og tekjur eru neikvæðar um 350 milljónir króna í nóvember 2007. Samt sem áður voru greiddar 25 milljónir króna í bónus til starfsmanna sviðsins mánuðinn þar á eftir. Á þremur mánuðum frá september til nóvember 2007 voru tekjur sviðsins ríflega 178 milljónir króna en bónusgreiðslur námu 194 milljónum króna fyrir sama tímabil. Með öðrum orðum, starfsmenn sviðsins sem Steinþór stýrði fengu hærri bónusgreiðslur en sem námu tekjum sviðsins.

Heildarbónusgreiðslur Landsbankans til Steinþórs á árinu 2007 námu 213 milljónum króna, en heildarlaun hans voru tæplega 30 milljónir króna á mánuði árið 2007.

Þess má geta að Steinþór var sá sem hafði milligöngu um 25 milljóna króna styrk Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2006. Þegar umfjöllun um styrkina komst í hámæli á síðasta ári sendi Steinþór m.a út sérstaka yfirlýsingu, ásamt Þorsteini M. Jónssyni, þar sem þeir greindu frá því að hafa haft milligöngu um styrki frá FL Group og Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins.

Ekki náðist í Steinþór Gunnarsson í dag og hann svaraði jafnframt ekki skilaboðum fréttastofu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×