Viðskipti innlent

Magnús plataði mig ekki í þetta kjaftæði

Jakob Valgeir Flosason segir æskuvin sinn, sem stýrði gjaldeyrissjóði Glitnis, ekki hafa fengið sig með í Stím:
Jakob Valgeir Flosason segir æskuvin sinn, sem stýrði gjaldeyrissjóði Glitnis, ekki hafa fengið sig með í Stím:

Fyrrverandi stjórnarformaður Stíms neitar að gefa upp hver það var frá Glitni sem fékk hann til liðs við verkefnið og sannfærði hann um að taka að sér stjórnarformennsku í félaginu. Það hafi þó ekki verið vinur hans Magnús Pálmi Örnólfsson.

Magnús Pálmi er einn þeirra sem hafa verið yfirheyrðir vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á málefnum Glitnis. Magnús stýrði gjaldeyrissjóðnum GLB FX sem keypti haustið 2008 verðlaust skuldabréf, útgefið af Stími, á 1,2 milljarða af Saga Capital. Þar með slapp Saga Capital undan skuldbindingum sínum vegna Stíms, ólíkt öllum öðrum sem tóku þátt í verkefninu. Magnús Pálmi undir­ritaði samninginn um kaupin á bréfinu fyrir hönd sjóðsins.

Fréttablaðið hefur síðan á þriðjudag ítrekað en án árangurs reynt að ná tali af Magnúsi Pálma til að spyrja hann um ástæður þess að hann kaus að verja 1,2 milljörðum í verðlausan pappír.

Magnús Pálmi er Bolvíkingur og æskuvinur Jakobs Valgeirs Flosasonar, fyrrverandi stjórnarformanns Stíms. Félög á vegum þeirra beggja eru skráð til húsa í Síðumúla 33.

Spurður hvort Magnús sé tenging hans inn í málið segir Jakob það af og frá. „Ég þekki fullt af fólki í þessum banka. Magnús kom ekki að því að plata mig í þetta kjaftæði." Hann fæst hins vegar ekki til að segja frá því hver eða hverjir það voru. „Það kannski kemur fram einhvern tímann seinna." Það hafi þó ekki heldur verið Jóhannes Baldursson, fyrrverandi yfirmaður markaðsviðskipta, sem sagður er hafa komið hluthafahópi Stíms saman.

Jakob Valgeir hefur ekki verið yfirheyrður vegna málsins. Sjálfur segist hann ekkert hafa að fela í málinu. - sh









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×