Viðskipti innlent

Landsbankinn býður einkabanka í farsímann

Viðskiptavinum Landsbankans býðst nú stóraukin þjónusta í gegnum farsímann. Með því að fara inn slóðina l.is geta þeir tengst Einkabankanum sínum og sinnt öllum algengustu bankaviðskiptum í símanum, hvar og hvenær sem er.

Í tilkynningu segir að á einfaldan og öruggan hátt er hægt að skoða yfirlit yfir stöðu reikninga og kreditkorta, millifæra, kaupa inneign fyrir GSM síma hjá öllum símafyrirtækjunum, sækja PIN-númer fyrir kreditkort, greiða inn á VISA kreditkort og fletta upp í þjóðskrá.

Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um staðsetningu útibúa og hraðbanka Landsbankans, gengi gjaldmiðla, fá fréttir frá Landsbankanum og Kauphallarfréttir.

Einkabankinn er netbanki Landsbankans og er einn fullkomnasti banki sinnar tegundar. Hann er í stöðugri þróun og fyrir skemmstu var öllu viðmóti hans breytt og þjónusta í honum aukin.

Til að komast inn í Einkabankann í gegnum farsíma þurfa viðskiptavinir að vera með hefðbundinn aðgang að Einkabankanum. Hægt er að sækja um Einkabankann í næsta útibúi eða á vef Landsbankans. Einkabankinn er opinn öllum viðskiptavinum bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×