Viðskipti innlent

Gengishagnaður af Icesave 60 milljarðar frá áramótum

Hægt er að reikna það út að gengishagnaður þjóðarbúsins frá áramótum af Icesave-samkomulaginu nemi tæpum 60 milljörðum kr. Þetta er sökum þess hversu gengi krónunnar hefur styrkst gagnvart evrunni og pundinu á þessum tíma.

Gengi evrunnar er nú tæplega 11% veikara en það var um síðustu áramót. Evran kostaði mest rúmlega 180 kr. um áramótin en kostar nú rétt tæpar 160 kr. Gengi pundsins hefur veikst um rúmlega 8%. Pundið kostaði mest 206 kr. skömmu eftir áramótin. Gengið er skráð á 189 kr. í dag.

Samkvæmt áminningarbréfi sem ESA, Eftirlitsstofun EFTA, sendi íslenskum stjórnvöldum eru Icesaveskuldir Íslands 2,1 milljarður punda til breskra innistæðueigenda. Hollenskum innistæðueigendum skuldum við 1,34 milljarð evra.

Þessi skuld hefur rýrnað um tæplega 35 milljarða í krónum talið hvað Bretana varðar og 23 milljarða kr. hvað Hollendinga varðar m.v. fyrrgreindan mismun á gengi krónunnar um áramót og í dag.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×