Viðskipti innlent

Flugfélögin urðu af milljarði í eldgosinu

Áætlað tap íslenskra flugfélaga vegna eldgossins í Eyjafjallajökli er á bilinu einn til 1,3 milljarðar króna. Stafar það bæði af miklu tekjutapi og auknum kostnaði sem hlaust af tilfæringum félaganna innanlands og utan.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir að tap félagsins sé á bilinu 700 milljónir til einn milljarður króna. Tap hvers dags á meðan gosið stóð sé í kringum 50 milljónir króna. Á bilinu 60 til 70 flug, sem á milli 15 og 20 þúsund farþegar áttu bókuð sæti í, féllu niður. Þrátt fyrir lokun Keflavíkurflugvallar tókst Icelandair að halda stórum hluta áætlunarflugs milli Evrópu og Bandaríkjanna með því að flytja miðstöð tengiflugs síns tímabundið til Glasgow.

Frá Iceland Express fást þær upplýsingar að gosið hafi kostað félagið nálægt 200 milljónum. Aflýsa þurfti 50 áætlunarflugum fram og til baka sem snerti á bilinu 15 til 20 þúsund farþega.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, áætlar að um hundrað milljónir hafi tapast vegna áhrifa eldgossins á innanlandsflugið. Suma daga hafi allt flug legið niðri en aðra hafi þurft að breyta áætlunum talsvert.

Birkir Hólm Guðnason er bjartsýnn á að sumarið verði, þrátt fyrir allt, ferðaþjónustunni hagfellt. Bindur hann miklar vonir við nýhafið markaðsátak ferðaþjónustunnar og stjórnvalda. Allt er það sett fram að því gefnu að gosinu í Eyjafjallajökli sé lokið. Hann segir að ekki verði hróflað við flugframboði Icelandair.

Iceland Express ætlar einnig að halda sinni áætlun að því frátöldu að ekki verður flogið reglubundið milli Akureyrar og Lundúna eins og áformað var. - bþs










Fleiri fréttir

Sjá meira


×