Viðskipti innlent

Seldi daginn eftir að ríkið ákvað að bjarga ekki hluthöfum í hruninu

Valur Grettisson skrifar
Baldur Guðlaugsson.
Baldur Guðlaugsson.

Fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Baldur Guðlaugsson, sem nú hefur verið ákærður fyrir innherjasvik, fundaði með samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað, degi áður en hann seldi öll hlutabréf sín í Landsbankanum, fyrir um 192 milljónir króna, samkvæmt ákæruskjali.

Meðal þess sem fram kom á fundinum voru upplýsingar um viðbragðsáætlanir ráðamanna auk þess sem fram kom að ef einn banki færi í greiðsluþrot myndu allir bankarnir komast í vandræði.

Þá segir í ákæruskjalinu að á sama fundi hafi komið skýrt fram að það var ekki ætlun ríkissins að bjarga hluthöfum.

Þessi fundur fór fram 16. september 2008, eða tveimur vikum fyrir hrun. Daginn eftir byrjaði Baldur að selja hlutabréfin sín, alls níu milljón hluti fyrir 192 milljónir. Sölunni lauk svo 18. september.

Það er settur ríkissaksóknari sem hefur höfðað mál á hendur Baldri en í ákæruskjalinu kemur fram að samráðshópurinn hafi fundað sex sinnum um viðkvæma stöðu íslenska bankakerfisins, meðal annars fundaði hópurinn með þáverandi fjármálaráðherra Bretlands um alvarlega stöðu Icesave.

Fyrsti fundurinn var haldinn í lok júlí, sá síðasti daginn áður en Baldur seldi hlutina.

Sjálfur neitar Baldur sök en málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 22. október. Refsiramminn fyrir brotin eru allt að sex ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×